ÞAÐ ER EINSTÖK LÍFSREYNSLA AÐ FERÐAST UM ÍSLAND Á REIÐHJÓLI
Landið upplifir þú á þínum eigin hraða með öllum skilningarvitum; stórbrotið landslag, endalausir sandar og hraun, mosabreiður af ólíkum toga, áburðardreifing bænda, smágróður og skondið fuglalíf; kríur og kjóar minna á ágæti hjálmanotkunar, vindar, skúrir og alls konar sólskin. Það er nokkuð öruggt að ferðast um landið einkum ef undirbúningurinn er góður og hvarvetna máttu, sem hjólandi ferðalangur, eiga von á svolítilli forvitni; “…ertu í alvörunni að hjóla um Ísland?” Landið okkar er draumastaður hins sjálfstæða ferðamanns. Slíkur ferðamaður kappkostar að virða víðfeðma en viðkvæma náttúru landsins hvort sem hann gengur, hjólar, ekur eða slær upp tjaldi. Þetta kort er unnið af þaulvönu hjólaferðafólki og veitir m.a. upplýsingar um afvikna vegi og slóða, hættu af bílaumferð, tjaldsvæði, almenningssamgöngur, hjólaferðir með leiðsögn og aðra þjónustu sem tengist hjólreiðum allt í kringum landið. Höfundar kortsins vona að það komi þér vel á ferðalaginu og óska þér góðrar ferðar.
Veður
Á Íslandi er þægilegasti tíminn til ferðamennsku á hjóli frá síðari hluta maí fram í byrjun september. Á þeim tíma er algengur meðalhiti 10-12°C þótt stöku sinnum séu um og yfir 20°C. Flestar nætur má búast við kulda nærri frostmarki. Mikill munur getur verið á veðri á tiltölulega nálægum svæðum. Lítið skjól er frá trjám og vegir víða upphækkaðir í landslaginu sem gerir þar vindasamara en annars staðar. Öll þekkjum við hve fyrirvaralaust hann getur rokið upp með ofsaveðri og lemjandi rigningu. Aldrei verður of oft minnt á nauðsyn þess að hafa ævinlega hlý og skjólgóð föt meðferðis, jafnvel í styttri dagsferðir. Það er órjúfanlegur hluti af hjólaferðamennsku hér á landi að taka veðurspá. Það má aldrei farast fyrir þegar hjólaferð er undirbúin eða áður en leggur dagsins hefst. Þar sem ekki er síma- eða netsamband er lágmark að hlusta á veðurfréttir í útvarpi og haga ferðum sínum í samræmi við þær. Við bendum líka á vedur.is, sími 902-0600 eða fá upplýsingar hjá staðkunnugum. Þegar spáð er 15-20 m/s fer að verða varasamt að vera á ferðinni á hjóli. Við fjöll þarf að varast vindhviður, en þær geta hæglega farið yfir 30 m/s og við þær aðstæður getur verið illmögulegt að teyma hjól, hvað þá meira. Hætta af bílaumferð eykst einnig við erfiðar veðuraðstæður. Vanir menn vita að slík veður bíða menn af sér þar til þeim slotar. Það er list að haga ferðum sínum eftir veðri. Skynsamlegt er að hjóla undan veðri og er tilvalið að nýta almenningssamgöngur og rútuferðir til að komast í aðstöðu til þess. Verði ekki hjá því komist að hjóla á móti vindi getur verið gott að ferðast síðla kvölds og að nóttu, en þá er veður oft stillara en að deginum. Þannig sækist ferðin betur í bjartri sumarnóttinni. Bílaumferðin er þá einnig minni en þjónusta á leiðinni nánast engin.
Vegir
Flestir helstu þjóðvegir landsins eru með bundnu slitlagi en yfirborð þeirra er oft frekar hrjúft. Umferð bíla hefur stóraukist á vinsælum ferðamannaleiðum síðustu árin. Fæstir vegir á suðvesturlandi uppfylla öryggiskröfur sem almennt eru gerðar í Evrópu um hjólreiðar á vegum. Eru þeir of mjóir (undir 8 m. að breidd) og sums staðar hefur verið bætt við akrein án þess að gera ráð fyrir vegöxl eða plássi fyrir hjólandi vegfarendur. Örfáir vegir hafa vegaxlir sem henta til hjólreiða eða sérstakar hjólareinar. Þetta kort má nota til að finna hentugar leiðir. Við mælum með því að hjóla á fáfarnari vegum, að nýta almenningssamgöngur og að hjóla utan álagstíma til að forðast umferð. Fjarri þéttbýli er umferð minni en samt er bílum ekið hratt. Um leið mjókka vegir og erfiðir staðir eins og einbreiðar brýr leynast víða. Utan þjóðvegar nr. 1 eru malarvegir algengari en ekki. Þar eru fáir á ferli en yfirborð malarveganna er fjölbreytilegt, og eru holur, þvottabretti, sandur og laus ofaníburður nokkur dæmi. Fyrir utan Hvalfjarðargöng, sem eru lokuð hjólaumferð, er í góðu lagi að hjóla önnur göng á landinu. Þau eru öll upplýst en nauðsynlegt er að vera með góð ljós á hjólinu til að sjást og gildir það auðvitað árið um kring.
Hálendið
Venjulega eru hálendisvegir lokaðir fram í lok maí eða jafnvel fram í júlí, allt eftir snjóalögum og árferði. Upplýsingar um opnanir og ástand fjallvega er að finna hjá Vegagerðinni, vegagerdin.is. Hálendisvegir eru grófir malarvegir, moldartroðningar, eða grýttir slóðar, misslæmir. Sumir eru að auki sendnir og getur verið ómögulegt að hjóla á þeim í þurrkatíð. Aðrir verða að forarsvaði þegar blautt er. Víða þarf að vaða ár, sem alltaf krefst aðgæslu. Sakleysisleg á getur orðið hættuleg í rigningum og jökulvötn eru alltaf varasöm, ekki síst þegar hlýtt er og getur þurft að bíða færis til að komast yfir þau. Best er að ráðfæra sig við staðkunnuga og vera ekki einn á ferli þegar á er þveruð. Á kortinu eru líka sýndir nokkrir aflagðir vegir eða leiðir þar sem engin vélknúin umferð er. Þar geta verið göngubrýr, fjallaskörð og fornar hálendisleiðir þar sem hvörf geta verið í vegi, brattar brekkur og aðstæður sem krefjast þess að hjólið sé teymt eða jafnvel borið. Ávallt þarf að afla upplýsinga um aðstæður á hverri slíkri leið sérstaklega áður en lagt er af stað. Ráðlegt er að nota lágt gíruð fjallahjól með belgmiklum og grófum dekkjum á þessum slóðum. Fat bike eða breiðhjól hafa einnig reynst vel. Á fjöllum er viðbúið að næsti staður sem býður upp á gistingu sé fjarlægur og öll þjónusta utan seilingar. Aftakaveður getur gert hvenær sem er, sandfok, snjókoma og hríð. Stór svæði eru utan þjónustusvæðis farsíma og margir staðir eru afar fáfarnir. Ástand á yfirborði vega og slóða er misjafnt og getur ferðin hæglega orðið miklu torsóttari en fyrirhugað var. Stundum nánast bara hægt að ferðast á gönguhraða. Þetta kort lýsir ekki ástandi vega hverju sinni, og vegir þar sem umferð er nokkur eru ekki endilega betri en þeir sem fáir fara um. Þetta kort eitt og sér er ekki tæmandi sem leiðarvísir um hálendisferðir. Þegar lagt er á hálendið er ávallt nauðsynlegt að afla sér sérstakra og nýrra upplýsinga um það svæði sem fara á um. Auk þess er ráðlegt að hafa meðferðis nákvæm staðfræðikort. Leitið ávallt upplýsinga frá staðkunnugum, svo sem skálavörðum og öðru ferðafólki. Skiljið eftir ferðaáætlun til að auðvelda leit ef eitthvað fer úrskeiðis. Hafið fyrir reglu að tilkynna ferðir ykkar á safetravel.is ef ferðast er utan fjölfarinna leiða.
Hjólaleiðir inn og út úr Reykjavík og Akureyri
Á höfuðborgarsvæðinu er ágætt kerfi hjólastíga eins og sést á Reykjavíkurkortinu. Til stendur að merkja fimm lykilleiðir í sumar, hverja með sínum lit. Auk hjólastíganna er oftast í lagi að hjóla á öllum minni vegum og sumir þeirra eru með sérstakar hjólareinar. Hérlendis megum við hjóla á gangstígum og gangstéttum en ævinlega skal sýna fótgangandi vegfarendum ítrustu tillitssemi. Nokkrir staðir, þar sem þrengsl eru eða ójöfnur, eru merktir sem “hægur” á kortinu; greiðari leiðir nálægt eru merktar með appelsínugulum lit. Ekki er mælt með að hjóla á stofnbrautum, þar sem umferð er hröð. Utan höfuðborgarsvæðisins eru nánast engir hjólastígar. Umferð er þung og hröð. Hringvegur nr. 1 er víðast hvar þröngur og hættulegur þeim sem hjóla. Leiðin til Keflavíkur eftir Reykjanesbraut er þokkaleg vegna breiðra vegaxla á leiðinni. Það er líka gott að hjóla til Krýsuvíkur og mælum við sérstaklega með hjólreiðum á Suðurstrandaveginum sem er nýlegur vegur og lítið ekinn. Eins er gott að hjóla Nesjavallaleiðina en Þingvallavegurinn er orðinn ansi umferðarþungur. Gamla leiðin yfir Lyngdalsheiði milli Þingvalla og Laugarvatns getur verið spennandi kostur, enda aflagður vegur. Góð leið til að forðast hringveginn er um Mosfellsheiði og Kjósarskarð og um Hvalfjörð. Ekki má hjóla Hvalfjarðargöngin, en nýta má þjónustu Strætós til Akraness eða Borgarness til að komast gegnum þau með hjólin. Austan Akureyrar má forðast hringveg nr. 1 með því að fara Vaðlaheiði (sjá Akureyrarkort). Um hana liggur malarvegur í þokkalegu ástandi sem er opinn umferð. Hallinn er nokkuð jafn og undir 10% og umferð er hverfandi.
Umferðarreglur
Leyfilegt er að hjóla á öllum vegum á Íslandi nema í Hvalfjarðargöngum. Engu að síður verður að teljast hættulegt að hjóla á helstu vegum á Suðvesturlandi. Á Höfuðborgarsvæðinu er best að nota hjólastíga. Þau sem hjóla á vegi skulu hjóla á hægri helmingi hans og hleypa umferð hjá. Almennt er leyfilegt að hjóla á gangstéttum og göngustígum en sýna skal gangandi fólki stökustu tilltssemi. Með öllu er bannað að spilla gróðri með því að hjóla utan vega eða slóða. Gróður á Íslandi er viðkvæmur og seinsprottinn. Sár í sverði eftir reiðhjólsdekk geta valdið jarðvegsrofi og gróa seint. Reiðhjól skulu hafa fram- og afturljós kveikt í myrkri, í göngum og við slæm birtuskilyrði, en ekki um hábjartan dag. Þeim sem eru yngri en 15 ára er skylt að hjóla með hjálm. Börn yngri en sjö ára mega aðeins hjóla á vegi undir leiðsögn einstaklings sem er 15 ára eða eldri.
Búnaður
Vanur ferðamaður á hjóli á Íslandi hefur ávallt í farteskinu hlýjan vind- og regnheldan fatnað, hanska og höfuðfat. Þá ferðast hann með tjald sem þolir íslensk veður. Hann er á fjalla- eða ferðahjóli sem borið getur nauðsynlegan farangur á traustum bögglaberum, þar með talið nægilega mikið af vatni fyrir dagsferð á vatnslausu svæði. Farskjóti hans er nýyfirfarinn og í góðu standi og helstu varahlutir og verkfæri eru í verkfæratöskunni. Meðal algengustu vandamála eru sprungin dekk, brotnir teinar, slitnar keðjur, týndar skrúfur og boltar, slitnir gír- og bremsuvírar og brotnir álbögglaberar. Sýnileikinn skiptir miklu máli og gott er að vera í endurskinsvesti.
Gisting
Á kortinu eru sýnd öll tjaldsvæði og allir staðir þar sem gistingu innanhúss er að fá. Þá eru merkt á kortið skálar og skýli sem orðið geta á vegi þeirra sem eru á ferðinni á hjóli, með rútu eða á báti. Algengt er að skálar á hálendinu séu fullbókaðir og ætti ávallt að bóka gistingu í þeim með góðum fyrirvara. Tjaldgisting: Almennt er ætlast til að notuð séu skipulögð tjaldsvæði. Kortið sýnir öll tjaldsvæði landsins, og á islenskahjolakortid.is eru ítarlegar upplýsingar fyrir hjólafólk, s.s. um bíllaus svæði, skjól, sturtur, þurrkaðstöðu, aðstöðu innandyra, verkfæri til viðgerða o.s.frv. á tjaldsvæðum. Sé skipulagt tjaldsvæði utan seilingar er hjólandi og gangandi fólki heimilt að slá upp göngutjaldi nótt og nótt á víðavangi, en þó ekki á ræktuðu landi, við íbúðarhús eða á sérstökum verndarsvæðum. Á láglendi er oftar en ekki girt meðfram vegum. Sjálfsagt er að afla leyfis áður en slegið er upp tjaldi á bújörð eða einkalandi. Ferðabílar og hjólhýsi skulu ávallt nota skipulögð tjaldsvæði. Um alla gistingu gildir auðvitað að aldrei skal raska náttúru, ávallt ganga vel um og ekki skilja neitt rusl eftir.
Matur og drykkur
Rétt er að minna á að víða er langt á milli þeirra staða þar sem afla má vista. Á lengri hálendisferðum er nauðsynlegt að hafa vistir til nokkurra daga. Þá er nauðsynlegt að hafa varabirgðir ef töf verður á för vegna veðra eða annarra aðstæðna. Sömuleiðis eru langar leiðir án mikillar þjónustu algengar þótt ferðast sé í byggð, svo sem á svæðinu milli Mývatns og Egilsstaða eða milli Hafnar og Skaftafells. Í sveitum er venjulega hægt að komast í drykkjarvatn í lækjum og ám. Ef vafi leikur á um hreinleika vatnsins má biðja bændur og búalið um kranavatn. Jökulvatn er aðeins drukkið í ítrustu neyð og þá síað. Venjulega er hægt að miða við að hafa tvo lítra vatns meðferðis en þar sem sandar eru og hraunbreiður án yfirborðsvatns getur þurft að gera ráð fyrir að bera enn meira vatn með sér.
Reiðhjól í flugi
Innlend flugfélög bjóða flest flutning á reiðhjólum í venjulegi farþegaflugi. Rétt er að láta flugfélagið vita fyrirfram ef ætlunin er að taka hjól með í flug. Ekki er nauðsynlegt að pakka hjólum í kassa en rétt er að snúa stýri, hleypa lofti úr dekkjum og búa um viðkvæma hluta hjólsins.
Keflavík: Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið komið upp fyrirmyndaraðstöðu til að taka í sundur/setja saman reiðhjól í Bike Pit gámi, sem staðsettur er um 100 m frá útgangi komusvæðisins. Þetta er upphitaður gámur með hjólastandi, pumpu og verkfærum. Fyrir þá sem koma erlendis frá, má benda á að flutningskassa má geyma í Bílahóteli, sem er í um 800 m fjarlægð, að Árnavelli 4 (luggagestorage.is, s. 455-0006, sjá Keflavíkurkort). Hjólreiðar til og frá Keflavíkurflugvelli: Hjólastígur liggur frá fyrrnefndum Bike Pit gámi til Keflavíkur. Leiðin til og frá Keflavík eftir Reykjanesbraut er þokkaleg vegna breiðra vegaxla á leiðinni.
Flugrútur og strætó ganga reglulega á milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur. Kynnisferðir, re.is, hefja sínar ferðir á BSÍ og Grayline, airportexpress.is, frá Holtagörðum. Báðir þessir aðilar bjóða einnig að sækja farþega á öll helstu hótel og tjaldsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Strætó leið 55 gengur frá BSÍ um Fjörð í Hafnarfirði að Leifsstöð en í honum er ekki öruggt að fá pláss fyrir reiðhjól.
Reiðhjól með Strætó og rútum
Public Transport kortið sýnir allar áætlunarleiðir hjá Strætó, rútum, ferjum og með flugi. Upplýsingar um áætlanir og verð fást á vefsíðum viðkomandi þjónustuaðila. Skoðunarferðir sem fela ekki í sér flutning milli staða eru ekki sýndar á kortinu. Fyrirframbókun: Yfirleitt er ekki nauðsynlegt að panta sæti fyrirfram en þó er ráðlegt að láta vita af áætluðum brottfararstað og –tíma. IOYO, Icelandbybus og Westfjord Adventures hvetja farþega til að bóka flutning á hjólum fyrirfram og almennt er mælt með því að hafa samband við viðkomandi þjónustuaðila ef ætlunin er að ferðast með hjól. Hjá Strætó er hvorki hægt að bóka sæti né pláss fyrir reiðhjól fyrirfram og sumir vagnar Strætó geta ekki flutt nein hjól. Flestar leiðir eru farnar einu sinni eða tvisvar á dag. Á sumum fáfarnari leiðum eru ferðir strjálari, eða nokkrar ferðir í viku. Sumar ferðir Strætós, sem merktar eru með brotalínum, eru aðeins eknar ef um það er sérstaklega beðið. Í slíkum tilvikum ber að hringja í þjónustuaðilann með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Rútur leggja upp frá nokkrum stöðum í Reykjavík: Strætó fer oftast frá Mjódd nema einstaka ferðir frá BSÍ. IOYO og Flybus frá BSÍ. Airportexpress frá Holtagörðum. Icelandbybus frá Hörpu og tjaldsvæðinu í Laugardal. Trex frá Ráðhúsinu og tjaldsvæðinu í Laugardal. Rútur hafa ákveðnar stoppistöðvar í hverjum bæ og þeim sem ferðast með hjól er bent á að gera vart við sig á viðkomandi stoppistöð. Ef nauðsyn krefur getur rútan líka tekið upp farþega eða hleypt þeim út á öðrum stöðum á leiðinni þar sem slíkt hentar, t.d. við vegamót. Flutningur á hjólum: Sé ætlunin að taka rútu utan hefðbundinna stoppistöðva ber að láta viðkomandi þjónustuaðila vita, og vera vel sýnilegur á viðkomandi stað. Á höfuðborgarsvæðinu og innanbæjar stöðva strætó og rútur eingöngu á merktum stoppistöðvum. Oftast er pláss fyrir u.þ.b. fjögur hjól en bílstjórinn segir til um hve mörg hjól geta farið með í hverri ferð. Sumar rútur gera ráð fyrir að hjólin fari í farangurslestina, aðrar hafa kerrur fyrir hjólin og enn aðrar rútur með festingar á bílunum sjálfum. Fyrir kemur að rútur á helstu leiðum séu fulllestaðar hjólum. Það borgar sig fyrir stærri hjólahópa að sjá um flutning eigin hjóla sjálfir, eftir öðrum leiðum. Farmiðar: Á öllum lengri leiðum er hægt að greiða fargjaldið með reiðufé eða greiðslukorti í bílnum sjálfum við brottför. Strætó selur 20 miða kort á nokkrum bensínstöðvum í dreifbýli og á sundstöðum. Þau eru og til sölu í verslunum 10/11 á höfuðborgarsvæðinu. Flestir þjónustuaðilar taka u.þ.b. 4000 kr. fyrir flutning á reiðhjóli nema hjá Strætó. Þar er frítt að ferðast með reiðhjól, bæði í þéttbýli og um allt land. Í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu mega vera tvö reiðhjól ef þau komast fyrir í vagninum með góðu móti. Þar hafa aðrir farþegar, barnavagnar og hjólastólar forgang.
Reiðhjól á ferjum
Hægt er að taka hjól um borð í allar bílferjur á Íslandi og venjulega er það raunin á farþegaferjum sömuleiðis. Ekki þarf að panta flutning á hjóli en ráðlegt er að hafa sambandi við þjónustuaðilann fyrirfram til að fá staðfest að siglt verði. Til Vestmannaeyja: Siglt úr Landeyjahöfn og frá Þorlákshöfn. Landeyjahöfn lokast auðveldlega vegna veðurs eða aðstæðna í höfninni. Þá fer Herjólfur frá Þorlákshöfn. Strætó leið 52 ekur að Hvolsvelli og sérstakur vagn tengist siglingum frá Þorlákshöfn. Yfir Breiðafjörð með Baldri: Á ferjunni Baldri eru hjól þeirra sem vilja hafa viðdvöl í Flatey hífð um borð, en hjól þeirra sem ætla alla leið eru höfð á bíladekki. Norræna: Ferjan siglir vikulega milli Hirtshals í Danmörku, Þórshafnar í Færeyjum og Seyðisfjarðar. Bóka þarf far með ferjunni með drjúgum fyrirvara – hjól er alltaf hægt að taka með en káetupláss á það til að seljast upp.
Sameiginlegt neyðarnúmer landsmanna er 112 (einn-einn-tveir).